Albert er sá þriðji í Hollandi

Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson. AFP

Albert Guðmundsson varð um helgina þriðji Íslendingurinn sem tekur þátt í að vinna hollenska meistaratitilinn í knattspyrnu og sá fimmti til að vera í röðum meistaraliðs þar í landi á sigurtímabili.

PSV tryggði sér titilinn með sannfærandi sigri á Ajax, 3:0, í uppgjöri efstu liðanna og er með tíu stiga forystu þegar þremur umferðum er ólokið.

Albert var í hópi varamanna PSV í leiknum og kom ekki við sögu en það hefur verið hlutskipti hans í vetur. Hann hefur sjö sinnum komið inn á í 30 leikjum liðsins í deildinni en hefur samhliða því skorað 9 mörk í 14 leikjum með varaliði PSV í næstefstu deild Hollands.

• Kolbeinn Sigþórsson er eini Íslendingurinn sem hefur spilað meira en Albert á meistaratímabili í Hollandi. Hann varð meistari þrjú ár í röð með Ajax, 2012, 2013 og 2014. Kolbeinn skoraði 7 mörk í 14 leikjum 2012 og 7 mörk í 15 leikjum 2013 en í bæði skiptin missti hann af hálfu tímabilinu vegna meiðsla. Þegar hann fagnaði þriðja titlinum vorið 2014 spilaði Kolbeinn hinsvegar 30 af 34 leikjum liðsins í deildinni og skoraði 10 mörk.

• Arnar Gunnlaugsson varð fyrstur Íslendinga hollenskur meistari en hann var í liði Feyenoord sem vann titilinn 1993. Hann var þó í svipuðum sporum og Albert og kom aðeins við sögu í fjórum leikjum liðsins í deildinni.

• Bjarki Gunnlaugsson, tvíburabróðir Arnars, var einnig í röðum Feyenoord þann vetur en glímdi við meiðsli og spilaði ekkert.

• Eiður Smári Guðjohnsen var í röðum PSV Eindhoven þegar liðið varð meistari 1997. Þá var hann hinsvegar frá keppni allt tímabilið eftir að hafa fótbrotnað illa vorið 1996.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert