Sara skoraði í frábærum sigri

Sara Björk fagnar marki á leiktíðinni.
Sara Björk fagnar marki á leiktíðinni. Ljósmynd/Instagram/sarabjork90

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði jöfnunarmark Wolfsburg og átti afar góðan leik á miðjunni hjá liðinu sem er í vænlegri stöðu í Meistaradeild Evrópu eftir 3:1 sigur gegn Chelsea í London í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum keppninnar.

Sara Björk er þar með komin með sex mörk í Meistaradeildinni á þessari leiktíð. Mark Söru kom á 17. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Löru Dickenmann en Chelsea komst yfir strax á 2. mínútu með marki fra Ji So-un. Maren Mjelde og Lara Dickenmann skoruðu síðari tvö mörk þýska liðsins á 42. og 66. mínútu. Wolfsburg og Chelsea mættust einnig í fyrra í Meistaradeildinni en þá í 32ja liða úrslitum þar sem Wolfsburg hafði samanlagt betur, 4:1.

Með 3:1-sigrinum á útivelli í kvöld er liðið komið í dauðafæri til þess að komast í úrslit á ný en það yrði í fimmta sinn á sjö árum. Liðið varð Evrópumeistari 2013 og 2014 en tapaði fyrir Lyon í úrslitum árið 2016. 

Lyon og Manchester City gerðu markalaust jafnatefli fyrr í dag í hinni undanúrslitaviðureigninni en síðari viðureignirnar fara fram eftir viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert