Pogba kaupir hringa fyrir samherjana

Paul Pogba fagnar heimsmeistaratitlinum með liðsfélögum sínum í franska landsliðinu.
Paul Pogba fagnar heimsmeistaratitlinum með liðsfélögum sínum í franska landsliðinu. AFP

Knattspyrnumaðurinn Paul Pogba, miðjumaður Manchester United og franska landsliðsins, ætlar að kaupa meistarahringa fyrir samherja sína í franska landsliðinu en það er ESPN sem greinir frá þessu. Hringarnir eru fyrir þá leikmenn sem urðu heimsmeistarar með Frakklandi í Rússlandi í sumar.

ESPN greinir frá því að Antoine Griezmann, leikmaður Atlético Madrid, og Pogba sjálfur hafi fengið hugmyndina að þessu en þeir eru báðir miklir aðdáendur NBA-körfuknattleiksdeildarinnar í Bandaríkjunum en þar tíðkast það að sigurvegarar hvers árs fái svokallaða meistarahringa.

Ekki hefur enn þá verið gefið upp, hvað hringarnir muni kosta en flutningskostnaðurinn fyrir þá frá Bandaríkjunum er í kringum 10.000 evrur en það samsvarar um rúmlega 1,3 milljónum íslenskra króna. 

Ekki eru allir leikmenn franska landsliðsins jafnlaunaháir og Pogba og þess vegna ákvað miðjumaðurinn að borga sjálfur fyrir hringana, frekar en að fá franska knattspyrnusambandið til þess að taka þátt í kostnaðinum.

mbl.is