Níu leikir í röð án sigurs

Gylfi Þór Sigurðsson og Paul Pogba í leik Íslands og …
Gylfi Þór Sigurðsson og Paul Pogba í leik Íslands og Frakklands á EM 2016. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í kvöld en þá mætir það sjálfum heimsmeisturum Frakka í vináttuleik á Stade du Roudourou-vellinum í Guingamp.

Það hefur verið ólíkt gengi liðanna undanfarna mánuði. Frakkar eru ósigraðir í 13 síðustu leikjum og þeir hömpuðu heimsmeistaratitlinum í Rússlandi í sumar. Frakkar töpuðu síðast leik síðast í mars en þá biðu þeir lægri hlut fyrir Kólumbíumönnum í vináttuleik.

Íslendingum hefur ekki tekist að vinna landsleik frá því þeir lögðu Indónesíumenn í tveimur leikjum í Indónesíu í janúar en í seinni leiknum tefldu Indónesíumenn fram „liði fólksins“ eins og það var kallað en almenningur fékk að velja liðið í kosningu. Síðan þá hefur íslenska liðið spilað níu leiki í röð án sigurs og hefur tapað sjö þeirra. Í þessum níu leikjum hefur Ísland skorað 7 mörk en fengið á sig 25.

Ísland og Frakkland hafa mæst 12 sinnum þar sem Frakkar hafa níu sinnum hrósað sigri en þremur leikjunum lyktaði með jafntefli. Síðast mættust þjóðirnar á Stade de France í júlí 2016 í átta liða úrslitum Evrópumótsins þar sem Frakkar unnu öruggan sigur 5:2.

Oliver Giroud skoraði tvö marka Frakka og þeir Paul Pogba, Dimitri Payet og Antoine Griezman skoruðu sitt markið hver en Kolbeinn Sigþórsson og Birkir Bjarnason skoruðu mörkin fyrir Ísland. Allir markaskorar í þessum leik eru í leikmannahópum liðanna í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert