Krossbandið slitið hjá Hólmari

Hólmar Örn Eyjólfsson hefur gætur á Antoine Griezmann í leik …
Hólmar Örn Eyjólfsson hefur gætur á Antoine Griezmann í leik Íslands og Frakklands í Guingamp í síðasta mánuði. AFP

Hólmar Örn Eyjólfsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, verður frá keppni næstu níu til tíu mánuðina hið minnsta en staðfest hefur verið að hann hafi slitið krossband í hné í bikarleik með Levski Sofia í Búlgaríu í fyrradag.

„Krossbandið er farið og liðþófinn líka, þannig að næsta í stöðunni er að finna út úr því hvar ég verði skorinn upp og koma því í ferli. Þetta eru fyrstu hnémeiðsli sem ég lendi í á ferlinum," sagði Hólmar við mbl.is.

Hólmar, sem er 28 ára gamall varnarmaður, hefur verið í byrjunarliði íslenska landsliðsins í undanförnum tveimur leikjum, gegn Sviss og Frakklandi, og var í hópnum sem fór í lokakeppni HM í Rússlandi síðasta sumar.

Hann er á sínu öðru tímabili með Levski Sofia eftir að hafa komið þangað í ágúst 2017 og samið til fjögurra ára. Hann var búinn að spila tólf af þrettán deildarleikjum Levski á þessu tímabili og skora tvö mörk í þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert