Sandra María gengin í raðir Leverkusen

Sandra María Jessen í leik með Þór/KA.
Sandra María Jessen í leik með Þór/KA. mbl.is/Golli

Sandra María Jessen, landsliðskona í knattspyrnu og fyrirliði Þórs/KA, hefur gengið í raðir Leverkusen í Þýskalandi. Hún samdi við félagið til loka tímabilsins 2020.

Sandra María þekkir vel til hjá félaginu, en hún fór þangað á láni seinni hluta vetrar 2016 þegar undirbúningstímabilið var í fullum gangi hér heima. Hún sneri svo aftur til Þórs/KA um vorið, en mun nú alfarið kveðja Akureyrarliðið.

Sandra fór út í nóvember síðastliðnum og æfði með liðinu og í kjölfarið fóru viðræður í gang. Leverkusen er í 10. sæti af 12 liðum í þýsku 1. deildinni með 10 stig eftir 13 leiki, þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið. Deildarkeppnin hefst aftur eftir vetrarhlé um miðjan febrúar.

Sandra María hefur allan sinn feril hér á landi leikið með Þór/KA, alls 116 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 73 mörk. Auk þess að hafa verið lánuð til Leverkusen árið 2016 fór hún á lán til Slavia Prag seinni hluta vetrar í fyrra. Hún á að baki 24 landsleiki fyrir Íslands hönd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert