Arsenal sneri erfiðri stöðu í sigur

Pierre-Emerick Aubameyang sótti grímu aftur fyrir markið eftir að hafa …
Pierre-Emerick Aubameyang sótti grímu aftur fyrir markið eftir að hafa komið Arsenal í 3:0 og fékk gula spjaldið fyrir tiltækið! AFP

Arsenal er komið í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir að hafa snúið blaðinu við á heimavelli gegn Rennes í kvöld en enska liðið sigraði 3:0 eftir að hafa tapað fyrri leiknum í Frakklandi með tveggja marka mun, 3:1.

Arsenal gaf tóninn strax í byrjun þegar Pierre-Emerick Augameyang skoraði á 5. mínútu. Aðeins tíu mínútum síðar var liðið komið með undirtökin í einvíginu eftir að Ainsley Maitland-Niles bætti við marki, 2:0.

Augameyang skoraði aftur á 72. mínútu, 3:0, og Arsenal fór illa með góð færi til að  bæta enn frekar við markatöluna.

Eintracht Frankfurt frá Þýskalandi gerði góða ferð til Mílanó á Ítalíu og vann þar 1:0 sigur á Inter. Luka Jovic skoraði markið strax á 6. mínútu en fyrri leikurinn endaði 0:0.

Villarreal frá Spáni vann Zenit Pétursborg frá Rússlandi 2:1 og þar með 5:2 samanlagt. Gerard Moreno og Carlos Bacca komu Gula kafbátnum tveimur mörkum yfir áður en Branislav Ivanovic, fyrrverandi leikmaður Chelsea, svaraði fyrir Zenit á lokamínútu leiksins.

Framlenging er hafin hjá Slavia Prag og Sevilla í Tékklandi þar sem staðan var 2:2 eftir venjulegan leiktíma en fyrri leikurinn á Spáni endaði líka 2:2.

Sama er á seyði í Lissabon þar sem Benfica er 1:0 yfir gegn Dinamo Zagreb frá Króatíu, sem vann fyrri leikinn 1:0.

Sex lið eru því komin áfram, Chelsea, Valencia, Napoli, Arsenal, Eintracht Frankfurt og Villarreal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert