Dreymdi aldrei um að vera atvinnumaður

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í fótbolta, skrifar áhugaverðan pistil á heimasíðu iNews. Þar fer hún yfir ferilinn og hvernig hana dreymdi aldrei um að verða atvinnumaður í fótbolta á hennar yngri árum. 

„Ég er búin að spila fótbolta síðan ég var fimm ára. Pabbi minn spilaði fótbolta og við deildum ástríðu yfir fótbolta. Við sátum saman á sófanum og horfðum annaðhvort á liðið hans, Leeds United, eða liðið mitt, Manchester United, en mig dreymdi aldrei um að vera atvinnumaður,“ byrjar Sara. 

Hún var ekki með fótboltastjörnur á veggnum hjá sér heldur poppstjörnur. „Ég þurfti fótbolta. Ég var með þörf fyrir að keppa og ég hataði að tapa. Samt voru poppstjörnur á veggnum mínum eins og Britney, J-Lo og Spice Girls.“

Lengi að fatta að þetta gæti orðið ferill

Sara æfði með strákum í yngri flokkum og áttaði sig hægt og rólega á því að þeir fengu betri meðferð en stelpurnar. „Strákarnir fengu t.d betri æfingatíma. Eftir allt, gæti þetta orðið ferill hjá þeim. Ég var mjög lengi að fatta að þetta gæti orðið ferill hjá mér líka.“

Sara kveðst stolt af því að sjá hversu langt kvennaknattspyrna er komin á Íslandi, en viðurkennir að hún verði enn fyrir fordómum. 

„Mér er sagt að ég sé ekki nógu góð, ekki nógu hröð og ekki í nógu góðu formi. Munurinn á laununum hjá konum og körlum er mikill og bestu knattspyrnukonur heims þurfa að mennta sig meðfram íþróttum og undirbúa sig fyrir lífið eftir þær. Kvennaboltinn verður að fá meiri virðingu og launamunurinn má ekki vera svona mikill,“ skrifar Sara. 

Pistilinn má sjá í heild sinni með því að smella hér

mbl.is