Real Madrid byrjað að kaupa

Luka Jovic.
Luka Jovic. AFP

Serbneski landsliðsmaðurinn Luka Jovic, framherji þýska liðsins Eintracht Frankfurt, er búinn að gera fimm ára samning við spænska stórliðið Real Madrid að því er heimildir Sky Sports herma.

Real Madrid greiðir 60 milljónir evra fyrir leikmanninn en sú upphæð jafngildir tæpum 8,3 milljörðum króna.

Jovic er 21 árs gamall sem kemur til að fá 1,3 milljarða í laun á ári. Hann kom til Frankfurt frá portúgalska liðinu Benfica árið 2017. Hann var lánaður til félagsins en í síðasta mánuði samdi hann við þýska liðið til ársins 2023.

Reiknað er með miklum mannabreytingum hjá Madridarliðinu í sumar en gengi liðsins á þessu tímabili hefur verið langt undir væntingum.  Fyrir lokaumferðina í spænsku deildinni er Real Madrid í þriðja sæti, 18 stigum á eftir erkifjendunum í Barcelona, sem fyrir nokkru síðan tryggðu sér meistaratitilinn annað árið í röð.

Þá féll Real Madrid úr leik í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir að hafa hampað Evrópumeistaratitlinum þrjú ár í röð. Zinedine Zidane tók aftur við þjálfun Real Madrid í mars og honum er ætlað að koma Madridarliðinu aftur í fremstu röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert