Fjórða vítaspyrnan sem Ter Stegen ver í Meistaradeildinni

Marc-Andre Ter Stegen eftir leikinn gegn Dortmund í gærkvöld.
Marc-Andre Ter Stegen eftir leikinn gegn Dortmund í gærkvöld. AFP

Ernesto Valverde, þjálfari Barcelona, þakkaði þýska markverðinum Marc-Andre ter Stegen fyrir stigið sem Börsungar fengu í leiknum gegn Borussia Dortmund í 1. umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fótbolta í gær.

Ter Stegen hélt sínum mönnum á floti og kórónaði frammistöðu sína þegar hann varði vítaspyrnu frá Marco Reus, fyrirliða Dortmund, í seinni hálfleik. Vítaspyrnuna hefði átt að framkvæma aftur því Ter Stegen var kominn vel frá marklínunni þegar Reus spyrnti á markið.

„Lið mitt spilaði ekki vel og við getum þakkað Ter Stegen fyrir jafnteflið,“ sagði Valverde eftir leikinn.

Ter Stegen er mikill vítabani en honum hefur tekist að verja fjórar af sex vítaspyrnum sem teknar hafa verið á hann í Meistaradeildinni.

Lionel Messi kom við sögu hjá Barcelona í fyrsta sinn á leiktíðinni en hann kom inn á fyrir hinn 16 ára gamla Ansu Fati eftir klukkutímaleik. Fati skráði nafn sitt í sögubækur Börsunga,  varð yngsti leikmaður félagsins til að spila í Meistaradeildinni.

mbl.is