Brynjar og Heimir urðu bikarmeistarar

Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Hlöðvarsson og Heimir Guðjónsson urðu í kvöld færeyskir bikarmeistarar í knattspyrnu þegar lið þeirra, HB, vann Víking frá Götu og Leirvík í úrslitaleiknum á Tórsvelli, 3:1.

Brynjar var fyrirliði HB í kvöld og Heimir vann sinn annan stóra titil sem þjálfari liðsins á jafnmörgum árum en þeir urðu færeyskir meistarar á síðasta tímabili.

Adrian Justinussen kom HB yfir á 40. mínútu og Símun Samuelsen, sem lék með Keflavík á árum áður, bætti við marki á 52. mínútu. Andreas Lava Olsen minnkaði muninn fyrir Víkinga tíu mínútum síðar en Sebastian Pingel innsiglaði sigur HB á 71. mínútu, 3:1, þremur mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.

HB fagnaði tvöföldum bikarsigri því kvennalið félagsins varð líka bikarmeistari með því að sigra EBS/Skála 3:0 í úrslitaleik.

mbl.is