„Það ræddi enginn við mig“

Heimir Guðjónsson, þjálfari HB.
Heimir Guðjónsson, þjálfari HB. Ljósmynd/Facebook-síða HB

„Tilboðið frá Val var gott og mér og fjölskyldunni fannst best á þessum tímapunkti að fara aftur til Íslands. Kannski kem ég aftur til Færeyja því okkur hefur liðið ákaflega vel hér,“ sagði Heimir í viðtali við útvarpsstöðina FM1 í Færeyjum í dag.

Heimir er að kveðja færeyska liðið HB sem hann hefur stýrt í tvö ár en hann hefur samið við Val um að þjálfa liðið næstu fjögur árin. Heimir hefur gert það gott með HB en liðið varð færeyskur meistari í fyrra og bikarmeistari í ár. Þegar tvær umferðir eru eftir er HB í fimmta sæti deildarinnar.

„Þetta var erfið ákvörðun því mér hefur líkað það mjög vel að þjálfa HB. Ég fékk fyrst símtal frá Val fyrir lokaumferðina á Íslandi og þar var ég spurður hvort ég hefði áhuga á að taka við Val. Ég sagði já og þar með hófust viðræður. Ólafur Jóhannesson fyrrverandi þjálfari Vals er góður vinur minn og ég vildi hafa allt á hreinu áður en ég tók ákvörðun um að verða þjálfari Vals.

Ég fékk tilboð frá Íslandi á síðasta ári en það hefði verið heimska að fara frá HB eftir aðeins eitt ár. Ég vildi vera með liðinu í Evrópukeppninni og ég ákvað að taka annað ár þar sem ég vildi líka sjá hvort við gætum unnið deildina aftur, “ sagði Heimir.

Heimir hefur verið orðaður við starf landsliðsþjálfara Færeyja en Daninn Lars Olsen lætur af störfum eftir undankeppni EM í næsta mánuði. Heimir var spurður um áhuga á því starfi og hvort haft hafi verið samband við hann út af því.

„Ég hafði áhuga á starfinu en það ræddi enginn við mig svo það verður ekkert af því. Sá sem tekur við því hefur góða möguleika að bæta árangur færeyska landsliðið því það eru margir ungir leikmenn að koma upp í Færeyjum.“

Heimir var spurður hvort komi til greina hjá honum að fá fleiri Færeyinga til liðs við Val en með liðinu leikur færeyski landsliðsmaðurinn Kaj Leo í Bartalstovu.

„Ég mun hugsa það og það kemur alveg til greina. Ég á eftir að skoða leikmannahóp Vals betur og sjá hvað þarf að gera þar.“

Hlusta má viðtalið við Heimi hér

mbl.is