Sá útvaldi lærir þýsku

José Mourinho hefur verið án starfs síðan hann var rekinn …
José Mourinho hefur verið án starfs síðan hann var rekinn frá Manchester United í desember 2018. AFP

José Mourinho, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, er byrjaður að læra þýsku en það eru þýskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Portúgalinn hefur verið án starfs síðan hann var rekinn frá Manchester United í desember 2018.

Mourinho hefur verið orðaður við endurkomu í boltann í þó nokkurn tíma en hann hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá Real Madrid að undanförnu. Þýski miðillinn Bild greinir frá því í dag að Borussia Dortmund horfi hýru auga til Mourinho þessa dagana.

Dortmund hefur ekki farið neitt sérstaklega vel af stað í þýsku 1. deildinni á þessari leiktíð. Liðið er í fjórða sæti deildarinnar með 15 stig eftir fyrstu átta leiki sína, einu stigi minna en topplið Borussia Mönchengladbach.

Dortmund var lengi vel í efsta sæti deildarinnar á síðustu leiktíð en missti Bayern München fram úr sér á lokakaflanum. Forráðamenn Dortmund eru orðnir þyrstir í titil en Lucien Favre er í dag knattspyrnustjóri liðsins.

Mourinho hafnaði því að taka við franska 1. deildarliðinu Lyon á dögunum. Hann hefur meðal annars verið orðaður við Tottenham í ensku úrvalsdeildinni en þýskir fjölmiðlar greina frá því að Portúgalinn sé spenntur fyrir því að reyna fyrir sér í Þýskalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert