Þýskaland tryggði sig inn á EM með stórsigri

Þjóðverjar eru komnir í lokakeppnina.
Þjóðverjar eru komnir í lokakeppnina. AFP

Þýskaland tryggði sér í kvöld sæti í lokakeppni EM karla í fótbolta með 4:0-stórsigri á Hvíta-Rússlandi á heimavelli. Austurríki, Holland og Króatía tryggðu sér sæti í lokakeppninni á sama tíma. 

Matthias Ginter kom Þjóðverjum yfir gegn Hvít-Rússum á 41. mínútu og Leon Goretzka og Toni Kroos bættu við mörkum snemma í seinni hálfleik, áður en Kroos bætti við öðru marki sínu og fjórða marki Þjóðverja á 83. mínútu. 

Holland og Norður-Írland gerðu markalaust jafntefli í sama riðli og eru Hollendingar fyrir vikið öryggir með sætið í lokakeppninni. Steven Davis fékk tækifæri til að tryggja Norður-Írum sigur, en hann skaut yfir mark Hollendinga úr vítaspyrnu. Mótið verður það fyrsta hjá Hollandi síðan á HM 2014. 

Austurríki vann 2:1-sigur á Norður-Makedóníu á heimavelli og tryggði sér í leiðinni farseðilinn með Póllandi á lokamótið. David Alaba og Stefan Lainer skoruðu mörk Austurríkismanna snemma í sitt hvorum hálfleiknum áður en Vlatko Stojanovski minnkaði muninn í uppbótartíma. Pólland, sem hafði þegar tryggt sér sæti í lokakeppninni vann Ísrael á útivelli í sama riðli, 2:1. 

Þá tryggði Króatía sér sæti á EM með 3:1-sigri á Slóvakíu á heimavelli. Róbert Bozeník kom Slóvakíu yfir á 32. mínútu en Nikola Vlasic, Bruno Petkovic og Ivan Perisic svöruðu fyrir Króata í seinni hálfleik. 

mbl.is