Hrottaleg tímasetning fyrir Malmö - Birkir fagnar kaupum Zlatans

Birkir Már Sævarsson og Zlatan Ibrahimovic vilja sjá veg Hammarby …
Birkir Már Sævarsson og Zlatan Ibrahimovic vilja sjá veg Hammarby sem mestan. mbl.is/Eggert/AFP

„Þetta er spennandi dæmi. Það koma vonandi bara tíu titlar í röð núna,“ segir Birkir Már Sævarsson, Valsari og 90 landsleikja maður, um kaup Zlatan Ibrahimovic á tæplega fjórðungshlut í sænska knattspyrnufélaginu Hammarby.

Birkir lék með Hammarby í þrjú ár, 2015-2017, en hefur eftir það haldið áfram að vera afar harður stuðningsmaður liðsins, meiri stuðningsmaður en gerist og gengur hjá nútímafótboltamönnum:

„Þetta voru þrjú bestu árin á ferlinum mínum. Mér leið mjög vel í Stokkhólmi og hjá Hammarby, og spilaði þarna minn besta bolta. Þeir björguðu ferlinum mínum. Ég hefði aldrei farið á EM eða HM ef ég hefði bara verið áfram fastur á bekknum hjá Brann. Þarna kom ég mér aftur á strik. Ég átti líka í mjög góðu sambandi við stuðningsmennina og eignaðist fullt af vinum í Stokkhólmi, og hef haldið sambandi við þá. Þessi klúbbur er alveg geðveikur en það er kannski erfitt að skilja það ef maður hefur ekki reynt það sjálfur. Ástríðan þarna grípur mann með sér og maður verður bara meiri og meiri stuðningsmaður,“ segir Birkir. Innkoma Zlatans í félagið leggst vel í hann:

„Maður fékk kannski meira sjokk í gær þegar hann birtist með Hammarby-treyjuna á samfélagsmiðlum, en ég sá það samt aldrei gerast að hann myndi verða leikmaður hjá liðinu. Mér datt í hug að þetta hefði eitthvað með akademíuna að gera, að synir hans væru að fara í Hammarby, eða þá að hann vildi skipta sér eitthvað af rafíþróttadeildinni þarna því bróðir Zlatans er einhver rafíþróttakappi.

Mér líst ágætlega á þetta. Ég er búinn að vera að lesa mér aðeins til um hvað hann sé að pæla og í löngu viðtali við Aftonbladet talar hann um að gera unglingaakademíuna þá bestu í Svíþjóð og að hann geti hjálpað til við að finna leikmenn. Þetta hljómar allt mjög vel, og mér sýnist af spjallborðum hörðustu stuðningsmannanna að þeir séu langflestir jákvæðir varðandi þetta. Það er til marks um að þetta sé fínt, því þeir eru yfirleitt meira á móti því að einhverjir aðrir eigi í félaginu,“ segir Birkir.

Zlatan Ibrahimovic við styttuna glæsilegu sem reist var honum til …
Zlatan Ibrahimovic við styttuna glæsilegu sem reist var honum til heiðurs í Malmö. AFP

Zlatan hefur sett stefnuna á heimsfrægð Hammarby og ætlar jafnframt að gera félagið að því besta á Norðurlöndunum, en liðið varð í 2. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í haust:

„Hann er með risatengslanet og ef Zlatan segir eitthvað þá er það komið í fréttir um allan heim. Hammarby er þannig klúbbur að hann vekur athygli einfaldlega út af stuðningsmönnunum, þó að árangur liðsins sé ekkert á heimsmælikvarða. Hann á alveg að geta gert þetta að stærra dæmi. Hann bendir á það sjálfur að hann sé hrifinn af því sem gert hefur verið innan sem utan vallar hjá félaginu síðustu ár, í ljósi þess að fyrir aðeins fimm árum var félagið í næstefstu deild. Það er alltaf fullur völlur á leikjum liðsins og það er í toppbaráttu, án þess að kosta sérstaklega miklu til. Hammarby-nafnið er orðið risastórt í Skandinavíu og verður enn stærra núna,“ segir Birkir.

Strax búið að skipta um kóng í Malmö

Zlatan er uppalinn í Malmö og telja stuðningsmenn Malmö kaup hans í Hammarby vera svik við uppeldisfélagið. Stytta af Zlatan var reist í Malmö í síðasta mánuði:

„Mönnum finnst það fyndnast hvernig er verið að fara með Malmö-stuðningsmennina. Tímasetningin er hrottaleg, svona skömmu eftir að styttan af Zlatan var reist. Ég sá að það var strax búið að setja límmiða með Markus Rosenberg á styttuna í morgun. Hann er þá nýi kóngurinn. Þeir eru ekkert agalega ánægðir þarna. Zlatan hefur örugglega bara gaman af þessu en ég hélt að hann myndi alltaf halda tryggð við Malmö. Hins vegar er það félag ekki þannig að hægt sé að kaupa í því eins og hjá Hammarby, skilst mér,“ segir Birkir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert