Zlatan kaupir knattspyrnufélag og vill gera það heimsfrægt

Zlatan Ibrahimovic er búinn að kaupa stóran hlut í Hammarby.
Zlatan Ibrahimovic er búinn að kaupa stóran hlut í Hammarby. AFP

Sænska knattspyrnustjarnan Zlatan Ibrahimovic hefur fest kaup á fjórðungshlut í sænska úrvalsdeildarfélaginu Hammarby. Hann ætlar með liðið í fremstu röð.

„Ég mun hjálpa Hammarby að verða besta knattspyrnufélag Norðurlandanna,“ sagði Zlatan í viðtali við Aftonbladet.

Þessar fréttir koma í kjölfar þess að Zlatan birti mynd af sér í Hammarby-treyju á þriðjudag, sem varð til þess að margir héldu að hann væri búinn að semja um að spila fyrir félagið. Nú er komið í ljós að hann hefur keypt hlut í félaginu, sem áður var í eigu bandaríska fyrirtækisins AEG. Það fyrirtæki er meirihlutaeigandi í LA Galaxy, bandaríska félaginu sem Zlatan lék síðast fyrir.

„Ég hef komist að samkomulagi við menn frá Hammarby og AEG um að gera þetta eins stórt og hægt er. Við ætlum að vera þekktir um allan heim. Ekki bara í Svíþjóð heldur í heiminum. Allir munu þekkja Hammarby og þegar fólk sér merki félagsins mun það vita að þetta er Hammarby,“ sagði Zlatan við Aftonbladet.

Hann ítrekaði hins vegar að hann sjálfur myndi ekki spila fyrir Hammarby, eða nokkuð annað félag í sænsku úrvalsdeildinni á næstunni.

Hammarby hefur einu sinni orðið sænskur meistari, árið 2001. Liðið vann sænsku 1. deildina árið 2014. Liðið endaði í 3. sæti úrvalsdeildarinnar í ár, aðeins einu stigi á eftir meisturum Djurgården.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert