Bale bannað að spila golf

Gareth Bale verður án síns helsta áhugamáls á EM.
Gareth Bale verður án síns helsta áhugamáls á EM. AFP

Knattspyrnumaðurinn Gareth Bale fær ekki að spila golf meðan á Evrópumótinu 2020 stendur. Bale er þekktur fyrir ást sína á golfi og er hann kallaður „golfarinn“ af liðsfélögum sínum í Real Madríd. 

Bale fær hins vegar ekki að njóta golfsins á EM. Jonathan Ford, stjórnarformaður velska knattspyrnusambandsins, segir að landsliðsþjálfarinn Ryan Giggs vilji að leikmenn einbeiti sér að því að spila fótbolta á mótinu og aðrar íþróttir gætu skapað meiðslahættu. 

„Ryan er harður á því að leikmenn ættu að einbeita sér að fótbolta. Við verðum hvergi nærri golfvöllum á EM. Leikmenn geta meiðst við að spila golf. Ég skil að sumir leikmenn gætu horft á þetta öðruvísi. Þeir æfa í allan dag, svo þeir vilja einhvers konar skemmtun,“ sagði Ford í samtali við Sky. 

mbl.is