Kosin í úrvalsliðið í Svíþjóð

Glódís Perla Viggósdóttir var í hópi tíu efstu í kjörinu …
Glódís Perla Viggósdóttir var í hópi tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins á Íslandi 2019 og hún er í úrvalsliði sænsku úrvalsdeildarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er í úrvalsliði sænsku úrvalsdeildarinnar fyrir árið 2019 sem leikmannasamtökin í Svíþjóð kusu og tilkynntu í gær.

Glódís og samherjar hennar í Rosengård urðu sænskir meistarar og lið hennar á sex af þeim ellefu leikmönnum sem eru í byrjunarliðinu en það eru leikmenn allra liðanna í deildinni sem greiða atkvæði í kosningunni.

Glódís lék alla 22 leiki Rosengård í deildinni og missti ekki úr mínútu í deildinni á árinu 2019, frekar en á því eina og hálfa tímabili sem hún hafði leikið með liðinu þar á undan.

Rosengård á líka leikmann ársins í kjöri samtakanna en það er framherjinn Anna Anvegård sem var kosin.

mbl.is