Árið hjá Söru hefst á algjörum lykilleik

Sara Björk Gunnarsdóttir er á toppnum með Wolfsburg og á …
Sara Björk Gunnarsdóttir er á toppnum með Wolfsburg og á stórleik fyrir höndum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Keppni í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu kvenna hefst á ný í kvöld eftir vetrarfríið og þar er enginn smáleikur á dagskránni því tvö efstu liðin mætast í leik sem getur farið langt með að ráða úrslitum í baráttunni um meistaratitilinn.

Sara Björk Gunnarsdóttir og samherjar í Wolfsburg eru með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar, hafa unnið tólf leiki og gert eitt jafntefli í fyrstu þrettán umferðunum. Þær eru með 37 stig en sækja heim lið Hoffenheim sem virðist vera eina liðið sem gæti komið í veg fyrir enn einn meistaratitil Wolfsburg-kvenna.

Hoffenheim er með 34 stig og hefur unnið ellefu af sínum þrettán leikjum og myndi ná Wolfsburg að stigum með sigri í kvöld. Wolfsburg vann fyrri leik liðanna á sínum heimavelli í september, 3:0, og það er eina tap Hoffenheim á tímabilinu. Framganga Hoffenheim í vetur hefur komið talsvert á óvart en liðið endaði í sjötta sæti í fyrra og áttunda þar á undan.

mbl.is