Í fangelsi fyrir að rjúfa sóttkví?

Luka Jovic gæti verið í slæmum málum í heimalandi sínu …
Luka Jovic gæti verið í slæmum málum í heimalandi sínu Serbíu. AFP

Luka Jovic, framherji spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, er í slæmum málum eftir að hann yfirgaf sóttkví vegna kórónuveirunnar í heimalandi sínu Serbíu í leyfisleysi. Þessi 22 ára gamli framherji flaug til Belgrad í síðustu viku til þess að vera með fjölskyldu sinni á meðan veiran gengur yfir Evrópu.

Serbía hefur gripið til mikilla varúðarráðstafana vegna veirunnar og þurfa þeir sem koma til landsins að fara í sóttkví í allt að 28 daga. Þar sem að Jovic var að koma frá Madrid á Spáni þar sem veiran hefur leikið fólk grátt átti hann að vera í sóttkví í að minnsta kosti fjórtán daga eins og reglur segja til um.

Alls hafa rúmlega 17.000 smit greinst á Spáni og þar af eru 767 látnir. Jovic sást á götum Belgrad stuttu eftir komuna til landsins og þá var hann einnig sjáanlegur í afmælisveislu kærustu sinnar. Nebojsa Stefanovic, innanríkisráðherra Serbíu, ítrekaði að Jovic gæti fengið fangelsisdóm fyrir að rjúfa sóttkví.

„Það skiptir ekki máli hvort þú ert íþróttamaður með stórt nafn eða átt peninga. Það mun ekki hjálpa þér þegar þú virðir ekki lögin og þær reglur sem settar hafa verið. Annaðhvort fara þeir eftir tilmælum stjórnvalda eða fara í fangelsi,“ sagði Stefanovic í samtali við fjölmiðlamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert