Bjóða 20 milljónum minna en samningurinn segir til um

Mauro Icardi fagnar marki fyrir PSG.
Mauro Icardi fagnar marki fyrir PSG. AFP

Franska meistaraliðið hefur boðið Inter Mílanó 50 milljónir evra fyrir argentínska knattspyrnumanninn Mauri Icardi, samkvæmt Sky Sports.

Icardi lék sem lánsmaður með PSG á nýliðnu keppnistímabili í Frakklandi og innifalið í þeim lánssamningi var að félagið gæti keypt hann fyrir 70 milljónir evra í sumar.

Icardi er 27 ára gamall og skoraði 111 mörk í 188 leikjum fyrir Inter í A-deildinni á árunum 2013 til 2019 og í vetur gerði hann 12 mörk í 20 leikjum fyrir PSG í frönsku 1. deildinni þar sem hann vann meistaratitilinn með liðinu. Alls gerði hann 20 mörk í 31 mótsleik, þar af fimm í Meistaradeild Evrópu, þar sem PSG er komið í átta liða úrslit.

Þrátt fyrir velgengni með félagsliðum sínum í Evrópu hefur Icardi ekki unnið sér fast sæti í landsliði Argentínu og aðeins spilað átta landsleiki. Hann var ekki valinn í lokahópinn fyrir HM 2018 í Rússlandi og ekki heldur fyrir Ameríkubikarinn á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert