Hertha keyrði yfir grannana

Dodi Lukebakio skorar annað mark Hertha Berlin.
Dodi Lukebakio skorar annað mark Hertha Berlin. AFP

Hertha Berlín vann sannfærandi 4:0-sigur á Union Berlín í höfuðborgarslag Þýskalands á Ólympíuvellinum í Berlín, heimavelli Hertha, í þýsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld. 

Eftir markalausan fyrri hálfleik gekk Hertha frá Union í seinni hálfleik. Vedad Ibsevic kom Hertha yfir á 51. mínútu og aðeins mínútu síðar bætti Dodi Lukebakio við öðru marki Hertha.

Á 61. mínútu var staðan orðin 3:0 eftir mark Matheus Cunha og varnarmaðurinn Dedryck Boyata gulltryggði 4:0-sigur tæpum stundarfjórðungi fyrir leikslok. 

Hertha er í tíunda sæti deildarinnar með 34 stig, fjórum stigum meira en Union Berlin sem er í tólfta sæti.

Er Union að leika í efstu deild Þýskalands í fyrsta skipti, en liðið er það fyrsta frá Austur-Berlín sem leikur í deild þeirra bestu frá sameiningu þýsku ríkjanna. Áður lék það í Oberligunni, efstu deild Austur-Þýskalands.

mbl.is