Bayern fagnaði eftir mikinn markaleik

Thomas Müller skoraði annað mark Bayern.
Thomas Müller skoraði annað mark Bayern. AFP

Bayern München jók forskot sitt á toppi þýsku 1. deildarinnar í fótbolta upp í fjögur stig á nýjan leik með 5:2-sigri á Eintracht Frankfurt á heimavelli í dag. 

Leon Goretzka og Thomas Müller komu Bayern í 2:0 í fyrri hálfleik og markamaskínan Robert Lewandowski bætti við þriðja markinu strax í upphafi seinni hálfleiks.

Þá tóku leikmenn Frankfurt við sér því Martin Hinteregger minnkaði muninn í 3:1 á 52. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar var hann aftur á ferðinni og staðan orðin 3:2. 

Kanadamaðurinn ungi Alphonso Davies kom Bayern hins vegar aftur tveimur mörkum yfir skömmu síðar og stundarfjórðungi fyrir leikslok skoraði Hinteregger sitt þriðja mark, en því miður fyrir hann í vitlaust mark og gulltryggði Bayern í leiðinni sigur. 

Bayern er með 61 stig á toppi deildarinnar, fjórum stigum á undan Borussia Dortmund. Frankfurt er í 13. sæti með 28 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert