Kópavogsbúinn kom við sögu í sigri gegn Inter

Leikmenn Bologna fagna dramatísku sigurmarki í Mílanó.
Leikmenn Bologna fagna dramatísku sigurmarki í Mílanó. AFP

Andri Fannar Baldursson kom inn á sem varamaður fyrir Bologna þegar liðið heimsótti Inter Mílanó í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu á Giuseppe Meazza-völlinn í Mílanó í dag. Leiknum lauk með 2:1-sigri Bologna en Andri Fannar kom inn á á 88. mínútu. 

Romelu Lukaku kom Inter yfir strax á 22. mínútu og Roberto Soriano í liði Bologna fékk að líta beint spjald á 57. mínútu og útlitin dökkt fyrir Bologna. Lautaro Martínez brenndi af vítaspyrnu fyrir Inter Mílanó á 62. mínútu og það virtist kveikja í leikmönnum Bologna.

Musa Juwara jafnaði metin fyrir Bologna á 74. mínútu og þremur mínútum síðar fékk Alessandro Bastoni í liði Inter að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Musa Barrow skoraði svo sigurmark leiksins á 80. mínútu og Bologna fagnaði sigri.

Bologna-menn eru nú taplausir í síðustu þremur deildarleikjum sínum en liðið er með 41 stig í níunda sæti deildarinnar. Inter Mílanó, sem var lengi vel í efsta sæti deildarinnar, er nú með 64 stig í þriðja sætinu, 11 stigum minna en topplið Juventus.

mbl.is