Atalanta raðaði inn mörkum gegn Birki og félögum

Úr leik Atalanta og Brescia í kvöld.
Úr leik Atalanta og Brescia í kvöld. AFP

Atalanta er komið upp í annað sæti ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu eftir 6:2-stórsigur á Birki Bjarnasyni og félögum í Brescia í kvöld. Atalanta hefur nú skorað ein 93 mörk í deildinni í 33 leikjum, 26 mörkum meira en stjörnum prýtt lið meistaranna í Juventus.

Heimamenn tóku forystuna strax á annarri mínútu en Brescia jafnaði metin sex mínútum síðar. Birkir Bjarnason spilaði allan leikinn fyrir gestina sem eygðu kannski einhverja von um góð úrslit eftir jöfnunarmarkið en hún var fljót að hverfa. Heimamenn bættu við fimm mörkum yfir rúmlega 20 mínútna markahríð áður en Brescia klóraði í bakkann undir lokin.

Mario Pasalic skoraði þrennu fyrir Atalanta og Marten de Roon, Ruslan Malinovskyi og Duván Zapata bættu við mörkum fyrir heimamenn. Ernesto Torregrossa og Nikolas Spalek skoruðu fyrir Brescia.

Birkir og félagar er í slæmri stöðu, með 21 stig í 19. og næstneðsta sæti þegar fimm umferðir eru eftir en liðið er níu stigum frá öruggu sæti. Atalanta er með 70 stig, sex stigum frá Juventus og tveimur fyrir ofan Inter sem bæði eiga leik til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert