Hazard er of fljótur að gefast upp

Eden Hazard í leiknum í gær.
Eden Hazard í leiknum í gær. AFP

Knatt­spyrnumaður­inn Eden Haz­ard hef­ur ekki átt sjö dag­ana sæla frá því að hann gekk til liðs við Real Madríd síðasta sum­ar en Belginn átti enn einn slæman leikinn þegar Real féll úr Meistaradeild Evrópu í gær eftir 2:1-tap, 4:2 samanlagt, gegn Manchester City á útivelli í gærkvöldi.

Hazard hefur áður viðurkennt að þetta tímabil sé hans versta á ferlinum en hann hefur skorað eitt mark í 22 leikjum fyrir Real sem borgaði 100 milljón evrur fyrir hann. Gamla Chelsea-kempan Tony Cascarino, sem spilaði fyrir félagið á tíunda áratug síðustu aldar, var öskuillur út í Belgann sem var til umræðu á talkSPORT eftir leikinn. 

„Hann hefur ekki tekið það alvarlega að fara til Real Madríd, hann hefur mætt þangað of þungur, í lélegu formi og er núna sífellt að meiðast. Þetta er ekki sami leikmaðurinn og var hjá Chelsea,“ sagði Cascarino en viðtalið við hann hefur farið sem eldur í sinu á samfélagsmiðlum í dag.

„Eins frábær og hann getur verið, þá gefst hann stundum upp og hættir að reyna. Hann kom til Madríd fyrir stórfé en hefur ekki tekið það nógu alvarlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert