Fyrsti leikur Sveins - íslensku markverðirnir héldu hreinu

Sveinn Aron Guðjohnsen er byrjaður að spila í dönsku úrvalsdeildinni.
Sveinn Aron Guðjohnsen er byrjaður að spila í dönsku úrvalsdeildinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveinn Aron Guðjohnsen lék í dag sinn fyrsta leik í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og tveir ungir íslenskir markverðir héldu hreinu með liðum sínum í danska fótboltanum í dag.

Sveinn Aron er nýkominn til OB frá Óðinsvéum í láni frá Spezia á Ítalíu. Hann kom inn á sem varamaður gegn AGF í Árósum í dag, á 84. mínútu. Jón Dagur Þorsteinsson og félagar í AGF höfðu þar betur gegn OB, 4:2. Jón Dagur fór af velli eftir 63 mínútur en Aron Elís Þrándarson kom inná hjá OB á 75. mínútu. 

AGF er þar með efst í deildinni með 7 stig eftir þrjár leiki en Hjörtur Hermannsson og félagar í Bröndby taka á móti Horsens síðar í dag og geta náð efsta sætinu á ný. OB er með 4 stig í sjöunda sæti.

SönderjyskE er með 6 stig í þriðja sæti og vann AaB frá Álaborg, 2:1. Ísak Óli Ólafsson sat á varamannabekk SönderjyskE allan tímann.

Elías með stórleik

Tveir tvítugir íslenskir markverðir spila í B-deildinni í vetur og þeir héldu báðir hreinu í dag. Patrik Sigurður Gunnarsson er í láni hjá Viborg frá Brentford á Englandi og hann varði mark liðsins í 3:0 útisigri á Köge. Viborg er á toppi deildarinnar með 10 stig eftir fjóra leiki.

Elías Rafn Ólafsson er í láni hjá Fredericia frá Midtylland, og hann fékk ekki heldur á sig mark í dag en Fredericia vann Silkeborg 1:0. Elías var í stóru hlutverki á lokamínútunum þegar hann varði nokkrum sinnum mjög vel. Fredericia er með 9 stig eftir fjóra leiki, eins og Esbjerg, Helsingör og Fremad Amager.

mbl.is