Annar Íslendingurinn í herbúðum Brescia

Hólmbert Aron Friðjónsson hefur skrifað undir samning við Brescia á …
Hólmbert Aron Friðjónsson hefur skrifað undir samning við Brescia á Ítalíu. Ljósmynd/Aalesund

Hólmbert Aron Friðjónsson er genginn til liðs við ítalska knattspyrnufélagið Brescia en þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum.

Framherjinn, sem er 27 ára gamall, kemur til ítalska félagsins frá Aalesund í Noregi þar sem hann hefur leikið frá árinu 2018. Hann skrifar undir þriggja ára samning við Brescia.

Hólmbert hefur leikið með HK, Fram, KR og Stjörnunni hér á landi ásamt því að leika sem atvinnumaður með Celtic, Brøndby og Aalesund. 

Sóknarmaðurinn hefur farið á kostum í Noregi á tímabilinu og skorað 11 mörk í úrvalsdeildinni en hann yfirgefur Aalesund sem fimmti markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar.

Brescia féll úr ít­ölsku A-deild­inni á síðustu leiktíð og leik­ur því í B-deild­inni í vet­ur en Birk­ir Bjarna­son, landsliðsmaður Íslands í knatt­spyrnu, er einnig samn­ings­bund­inn Brescia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert