Gekk of langt í gagnrýni á Lagerbäck

Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari Norðmanna í knattspyrnu.
Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari Norðmanna í knattspyrnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír leikmenn norska karlalandsliðsins í knattspyrnu hafa birt yfirlýsingu um að Alexander Sörloth, samherji þeirra í landsliðinu, hafi gengið of langt í gagnrýni sinni á Lars Lagerbäck þjálfara og aðstoðarmann hans, Per Joar Hansen, eftir að norska liðið tapaði fyrir Serbum í undanúrslitum umspilsins fyrir EM.

Lagerbäck sagði í viðtali á heimasíðu norska knattspyrnusambandsins á dögunum að hann hefði aldrei á þrjátíu árum sem landsliðsþjálfari upplifað að leikmaður færi yfir strikið í gagnrýni sinni eins og Sörloth hafi gert.

„Ég er alltaf tilbúinn í að ræða málin þegar hlutirnir ganga ekki sem skyldi og hef fulla þolinmæði gagnvart því að menn láti í ljós ýmsar skoðanir um fótboltann sem slíkan. Alexander kom hinsvegar fram með ásakanir sem snerust ekki um leik liðsins og sagði í framhaldi af því að við Per Joar Hansen værum óhæfir sem þjálfarar, bæði hvað varðar stjórnun og fótboltann sjálfam. Á þrjátíu árum í alþjóðlegum fótbolta hef ég aldrei upplifað að leikmaður hafi farið yfir strikið á þennan hátt. Ég hef rætt við leikmenn fram og til baka um ýmsar skoðanir á fótboltanum, en það hefur aldrei verið í líkingu við þetta," sagði Lagerbäck sem þjálfaði íslenska landsliðið með frábærum árangri á árunum 2012 til 2016.

Landsliðsmennirnir Stefan Johansen, Omar Elabdellaoui og Joshua King hafa nú birt sameiginlega yfirlýsingu á heimasíðu knattspyrnusambandsins.

„Tapið gegn Serbum var sárt fyrir leikmenn og þjálfara. Í þessu tilfelli gekk leikmaðurinn of langt og við erum ánægðir með að hann skyldi biðja leikmenn og sjtórnendur liðsins afsökunar á framkomu sinni. Um leið var óþarft af landsliðsþjálfaranum að vísa til leiksins við Kýpur en við höfum skilning á því að honum hafi fundist að heiðarleiki sinn væri dreginn í efa. Það er mjög óheppilegt að það sem gerist innan hópsins skuli leka í fjölmiðla. Það mun ekkigerast aftur og það munum við ræða við alla leikmenn í okkar hópi," sögðu þremenningarnir í yfirlýsingunni en næsta verkefni Norðmanna eru tveir síðustu leikirnir í Þjóðadeildinni, gegn Rúmeníu og Austurríki.

mbl.is