Evrópumeistararnir gulltryggðu sætið

Danielle van de Donk skoraði tvö.
Danielle van de Donk skoraði tvö. AFP

Evrópumeistarar Hollands gulltryggðu sæti sitt á lokamóti EM kvenna í fótbolta með þægilegum 7:0-sigri á Eistlandi á heimavelli í kvöld. 

Danielle van de Donk og Jackie Groenen skoruðu tvö mörk hvor fyrir hollenska liðið og Sherida Spitse, Aniek Nouwen og Katja Snoeijs skoruðu einnig.

Holland er með 24 stig á toppi riðilsins, níu stigum á undan Rússlandi. 

Slóvakía fór upp í þriðja sætið í F-riðli Íslands með 2:1-útisigri á Ungverjalandi. Patricia Hmirova og Mária Mikolajová komu Slóvakíu í 2:0 áður en Sára Pusztai minnkaði muninn fyrir Ungverja í blálokin. 

Svíþjóð er í toppsætinu með 16 stig, Ísland í öðru með 13, Slóvakía og Ungverjaland með sjö og Lettland án stiga. Ísland og Svíþjóð mætast í úrslitaleik um toppsætið á þriðjudaginn kemur. 

mbl.is