Messi of dýr og of gamall

Lionel Messi er samningslaus eftir leiktíðina.
Lionel Messi er samningslaus eftir leiktíðina. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester City ætlar ekki að semja við Lionel Messi næsta sumar. Þetta segir Semra Hunter sérfræðingur um spænska fótboltann.

City þótti líklegasti áfangastaður Messi sem vildi yfirgefa Barcelona eftir síðustu leiktíð en eftir viðræður við Barcelona samþykkti sóknarmaðurinn að taka eitt tímabil til viðbótar með spænska liðinu.

Messi verður samningslaus eftir tímabilið og má hann ræða við önnur félög í janúar, en Hunter segir Manchester City ekki ætla að sækjast eftir þjónustu Argentínumannsins þar sem launakostnaður hans sé of mikill og þá er Messi orðinn 33 ára.

„Heimildir mínar herma að City ætli ekki að reyna að fá Messi. Í fyrsta lagi er hann of gamall og í öðru lagi eru launin hans of há. Hann er ekkert unglamb lengur og gæti hætt fljótlega. Hann myndi kosta 100 milljónir evra á ári og það er mikið, sérstaklega í miðjum heimsfaraldri,“ sagði Hunter við Sky.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert