Leikvangurinn nefndur í höfuðið á Maradona

Diego Maradona er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Napoli.
Diego Maradona er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Napoli. AFP

Luigi De Magistris, borgarstjóri Napolí, tilkynnti í dag að San Paolo-leikvangurinn í borginni yrði nefndur í höfuðið á knattspyrnugoðsögninni Diego Maradona sem lést á heimili sínu í Buenos Aires í Argentínu á miðvikudaginn síðasta.

Maradona lést úr hjartaáfalli, sextugur að aldri, en hann lék með Napoli frá 1984 til ársins 1991 og er í guðatölu hjá stuðningsmönnum félagsins.

Hann bar liðið á herðum sér og leiddi liðið tvívegis til sigurs í ítölsku A-deildinni. Þá varð liðið einnig bikarmeistari árið 1987 og Evrópumeistari 1989.

„Í næstu viku munum við formlega nefna San Paolo-leikvanginn eftir Diego Armando Maradona,“ sagði Magistris í samtali við útvarpsstöðina Punto Nuovo.

Leikvangurinn í Napolí mun því heita San Paolo-Maradona frá og með næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert