Neyðarfundur í Madríd

Sergio Ramos hefur leikið með Real Madrid frá árinu 2005.
Sergio Ramos hefur leikið með Real Madrid frá árinu 2005. AFP

Sergio Ramos, fyrirliði Spánarmeistara Real Madrid í knattspyrnu, boðaði leikmenn liðsins á neyðarfund í vikunni en það er spænski miðillinn AS sem greinir frá þessu.

Gengi Real Madrid á tímabilinu hefur ekki verið nægilega gott og er komin pressa á Zinedine Zidane, stjóra liðsins, þrátt fyrir að hann hafi stýrt liðinu til sigurs í spænsku 1. deildinni á síðustu leiktíð.

Ramos, sem er 34 ára gamall, var að reyna að stappa stálinu í liðsfélaga sína en liðið tapaði 2:0-fyrir Shakhtar Donetsk í Úkraínu í Meistaradeildinni í vikunni.

Real Madrid er með sjö stig í öðru sæti B-riðils Meistaradeildarinnar og þarf því að vinna Borussia Mönchengladbach í lokaumferð riðlakeppninnar til þess að komast áfram í sextán liða úrslit keppninnar.

Þá er Real Madrid með 17 stig í fjórða sæti spænsku deildarinnar en liðið hefur tapað þremur leikjum í deildinni til þessa.

mbl.is