Barcelona áfram efst á tekjulistanum - Liverpool upp í 5. sætið

Barcelona og Real Madrid fá mestar tekjur allra knattspyrnufélaga.
Barcelona og Real Madrid fá mestar tekjur allra knattspyrnufélaga. AFP

Barcelona var með mestar tekjur allra knattspyrnufélaga á keppnistímabilinu 2019-20 og Liverpool er í fyrsta skipti í tuttugu ár á meðal þeirra fimm félaga sem eru með mesta tekjur, samkvæmt árlegum útreikningum Deloitte.

Barcelona og Real Madrid eru í tveimur efstu sætunum, rétt eins og 2018-19 en Bayern München fer upp fyrir Manchester United og í þriðja sætið. Liverpool fer upp fyrir Manchester City og París SG og lyftir sér því úr sjöunda sætinu í það fimmta.

Barcelona er með rúmar 627 milljónir punda í tekjur á árinu, og Real Madríd með sléttar 627 milljónir þannig að sáralítið skilur að spænsku stórveldin. Bayern er með 556 milljónir punda, Manchester United 509 og Liverpool tæpar 490 milljónir punda í hagnað.

Öll félögin í fjórtán efstu sætum listans voru með minni tekjur á síðasta tímabili en því næsta þar á undan og eru það fyrst og fremst áhrif vegna kórónuveirunnar. Mesti samdrátturinn er hjá Manchester United, 19 prósent, og síðan 15 prósent hjá Barcelona, parís SG og Tottenham, en minnsti samdrátturinn er hjá þýsku félögunum Borussia Dortmund, 2 prósent, og Bayern München, 4 prósent.

Það er ekki fyrr en komið er niður í fimmtánda sæti sem komið er að félagi með meiri tekjur 2018-19 en tímabilið á undan. Það er rússneska félagið Zenit Pétursborg sem jók sínar tekjur um 30 prósent á milli ára.

mbl.is