Tekið á að vera í eltingarleik um sæti í byrjunarliðinu

Hjörtur Hermannsson hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Bröndby …
Hjörtur Hermannsson hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Bröndby á tímabilinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Hjörtur Hermannsson hefur ekki átt fast sæti í liði danska úrvalsdeildarfélagsins Bröndby á leiktíðinni.

Varnarmaðurinn, sem er 26 ára gamall, gekk til liðs við danska félagið frá PSV í Hollandi sumarið 2016 og er því á sínu fimmta tímabili í Danmörku.

Hjörtur hefur komið við sögu í tólf af sautján leikjum Bröndby á tímabilinu en aðeins byrjað sex þeirra, þá hefur hann verið í byrjunarliðinu í síðustu tveimur leikjum liðsins, en samningur hans við danska félagið rennur út í sumar.

„Þetta tímabil er búið að vera upp og ofan hjá mér persónulega,“ sagði Hjörtur í samtali við Morgunblaðið.

„Liðinu hefur gengið gríðarlega vel og eins og gefur að skilja þá er samkeppnin mjög hörð hjá klúbbi eins og Bröndby. Ég væri að ljúga ef ég myndi ekki segja að ég hefði verið til í að vera búinn að spila mun meira en ég hef gert á tímabilinu, sérstaklega fyrir jól. Hvort það spili eitthvað inn í að ég sé að verða samningslaus skal látið ósagt en ég hef allavega reynt að sinna minni vinnu eins vel og kostur er, bæði í leikjum og á æfingasvæðinu.

Sú vinna hefur skilað sér, allavega eins og staðan er í dag, því ég hef verið í byrjunarliðinu í undanförnum leikjum. Á sama tíma hef ég komið við sögu í flestum leikjum á tímabilinu þótt það hafi kannski ekki alveg verið mínúturnar sem ég hefði viljað því auðvitað vill maður byrja alla leiki,“ sagði Hjörtur sem er uppalinn hjá Fylki í Árbænum.

Líður vel í Danmörku

Hjörtur hefur verið orðaður við brottför frá Bröndby í dönskum fjölmiðlum en það gæti vel farið svo að leikmaðurinn verði áfram í herbúðum félagsins á næstu leiktíð.

„Sem knattspyrnuáhugamaður þá fylgist maður vel með íþróttafréttum og það er oft meira sem býr að baki en það sem er skrifað um í fjölmiðlum. Ég hef rætt stöðu mína hjá félaginu við forráðamenn Bröndby og það á ekki að fara í fjölmiðla sem okkur fer á milli. Núna er ég fyrst og fremst að hugsa um að standa mig eins vel og mögulegt er fyrir félagið og við tökum svo bara stöðuna að tímabili loknu.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert