Zlatan leikur í Ástríksmynd

Zlatan Ibrahimovic mun leika rómverskan hershöfðingja.
Zlatan Ibrahimovic mun leika rómverskan hershöfðingja. AFP

Zlatan Ibrahimovic heldur áfram að undirbúa sig fyrir lífið eftir fótboltann en eftir að hafa tekið þátt í tónlistarhátíð í mars hefur hann nú opinberað að hann muni leika í kvikmynd.

Zlatan, sem er 39 ára gamall Svíi og leikur með AC Milan, kom fram ásamt Sinisa Mihajlovic, þjálfara Bologna, á tónlistarhátíðinni í Sanremo á Ítalíu.

Fréttastofa Reuters skýrir nú frá því að með því að birta mynd af sér á Instagram með nafninu „Antivirus“ sé Zlatan búinn að staðfesta að hann muni leika í nýrri kvikmynd um Ástrík og Steinrík, Silkivegurinn, sem Guillaume Canet leikstýrir og á að koma út á næsta ári. Antivirus er sagt vera nafnið á persónunni sem Zlatan leiki í myndinni.

Caius Antivirus er rómverskur hershöfðingi sem kemur við sögu í fleiri Ástríksbókum og myndum en Ástríkur og Steinríkur eru erkifjendur Rómverja í bókunum og leika þá grátt hvað eftir annað.

mbl.is