„Er svo stolt af sjálfri mér“

Emma Hayes, knattspyrnustýra Chelsea.
Emma Hayes, knattspyrnustýra Chelsea. AFP

Emma Hayes, knattspyrnustýra kvennaliðs Chelsea í knattspyrnu, kvaðst afar stolt af sjálfri sér eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn í gær.

„Ég ætla að segja þetta við alla þjálfara sem sitja heima: Þetta er afrakstur þúsunda klukkustunda, þúsunda ferðalaga, þúsunda bakslaga þar sem ég hef unnið með ólíkum liðum á alls konar augnablikum.

Ég er svo stolt af sjálfri mér. Ég komst á þennan stað með því að leggja hart að mér og vera ákveðin og ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna fyrir knattspyrnufélag sem ég dýrka, sem hefur gert mér kleift að ná þessum áfanga,“ sagði Hayes í samtali við Sky Sports eftir að Chelsea vann Bayern München 4:1 í gær og þar með 5:3 samanlagt

Hún hrósaði því næst leikmönnum sínum í hástert. „Ég er að vinna með hópi leikmanna sem voru alltaf við stjórn, meira að segja þegar mér leið ekki þannig. Þær gerðu allt sem hægt var í dag [í gær]. Seiglan í þessu liði er ótrúleg.“

Hayes, sem hefur verið knattspyrnustýra Chelsea undanfarin níu ár, sagðist ekki hafa getað beðið eftir leiknum gegn Bayern í gærmorgun.

„Ég var búin að óska mér svo innilega þess sem gerðist í dag [í gær]. Þetta var lengsta vika í heimi. Ég þurfti að gera allt til þess að halda tilfinningum mínum í skefjum. Ég vildi bara að leikurinn hæfist og var svo glöð að leikurinn var snemma.

Ég hef lært það í gegnum árin að auðvitað vil ég vinna úrslitaleikinn en ég ætla að hampa þeim árangri sem við höfum náð og með því skráð okkur í sögubækurnar, því við erum búnar að setja þúsundir klukkustunda í þetta,“ sagði hún einnig.

mbl.is