Philipp Lahm pistlahöfundur hjá Morgunblaðinu

Philipp Lahm lyfti heimsbikarnum sem landsliðsfyrirliði Þjóðverja árið 2014.
Philipp Lahm lyfti heimsbikarnum sem landsliðsfyrirliði Þjóðverja árið 2014. AFP

Philipp Lahm, fyrirliði þýska heimsmeistaraliðsins í knattspyrnu árið 2014, er nýr pistlahöfundur Morgunblaðsins og í fyrramálið birtist á íþróttasíðum blaðsins fyrsti pistillinn frá honum sem fjallar um Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City.

Philipp Lahm, sem er 37 ára gamall, lék á 113 landsleiki fyrir Þýskaland á árunum 2004 til 2014 og hætti á toppnum en úrslitaleikur heimsmeistaramótsins í Brasilíu þegar Þýskaland lagði Argentínu að velli, 1:0, var hans síðasti landsleikur. 

Hann lék með Bayern München í fimmtán ár en lagði skóna á hilluna árið 2017 og er nú m.a.  mótsstjóri Evrópumóts karla sem fram fer árið 2024.

Pistlar hans um knattspyrnu, „Mitt sjónarhorn“ munu birtast reglulega í Morgunblaðinu. Þeir eru skrifaðir í samvinnu við Oliver Fritsch, íþróttaritstjóra þýska netmiðilsins Zeit Online, og birtast í fjölmiðlum nokkurra Evrópulanda.

Pep Guardiola á enska meistaratitilinn vísan með Manchester City og …
Pep Guardiola á enska meistaratitilinn vísan með Manchester City og er kominn með liðið í fyrsta sinn í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. AFP

Fyrsti pistill hans í blaðinu í fyrramálið fjallar um Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City, en Lahm lék undir hans stjórn hjá Bayern á árunum 2013 til 2016. Þar segir Lahm frá vinnubrögðum og hugmyndafræði Spánverjans, og hvernig hann hefur þróað sig og lið sín með árunum, frá Barcelona til Manchester City.

mbl.is