Við erum eyðilagðir

Mikel Arteta var svekktur í leikslok.
Mikel Arteta var svekktur í leikslok. AFP

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, var í sárum eftir markalaust jafntefli liðsins gegn Villarreal í síðari leik liðanna undanúrslitum Evrópudeildar UEFA á Emirates-vellinum í London í kvöld.

Fyrri leik liðanna á Spáni lauk með 2:1-sigri Villarreal sem er komið áfram í úrslitaleikinn þar sem spænska liðið mætir Manchester United í Gdansk í Póllandi, 26. maí.

„Við erum algjörlega eyðilagðir eftir þessi úrslit,“ sagði Arteta í samtali við BT Sport.

„Ég vil nota tækifærið og óska Villarreal til hamingju. Við gerðum allt til þess að vinna leikinn og áttum skilið að vinna hann fannst mér.

Það eru smáatriðin sem ráða úrslitum í svona einvígum og því fór sem fór. Við fengum færin til þess að skora en boltinn vildi ekki í netið. 

Þetta var erfitt strax frá fyrstu mínútu en við erum reynslunni ríkari. 90% af leikmannahópnum voru að spila sitt fyrsta undanúrslitaeinvígi og þetta fer í reynslubankann.“ bætti Arteta við.

mbl.is