Greindist neikvæður – jákvæða niðurstaðan fölsk?

Spænski landsliðsmaðurinn Diego Llorente fagnar marki sínu í leik Leeds …
Spænski landsliðsmaðurinn Diego Llorente fagnar marki sínu í leik Leeds United gegn Liverpool í apríl síðastliðnum. AFP

Diego Llorente, varnarmaður Leeds United og spænska landsliðsins, fékk neikvæða niðurstöðu úr skimun fyrir kórónuveirunni í gær eftir að hafa greinst með veiruna daginn áður.

Llorente og Sergio Busquets, miðjumaður Barcelona og fyrirliði landsliðsins, greindust báðir með veiruna á þriðjudaginn og því fór allur spænski landsliðshópurinn í sóttkví.

Þetta leiddi til þess að nýr bráðabirgða hópur, sem innihélt einungis leikmenn úr U21-árs landsliði Spánar, var kallaður upp til þess að spila vináttuleik gegn Litháen á þriðjudag, sem endaði með 4:0 sigri Spánverja.

Spænska knattspyrnusambandið hefur gefið það í skyn að fyrsta skimun Llorente hafi skilað falskri jákvæðri niðurstöðu.

Greinist Llorente neikvæður í næstu skimun má hann hefja æfingar að nýju á morgun.

Spænski hópurinn veltir því nú fyrir sér hvort hann eigi að láta bólusetja sig fyrir kórónuveirunni áður en EM hefst hjá liðinu. EM hefst á morgun en fyrsti leikur Spánar verður gegn Spáni á mánudaginn.

Verður ákvörðun tekin í kvöld eða í fyrramálið þar sem tekið verður tillit til mögulegra aukaverkana sem geta fylgt bólusetningum.

mbl.is