Argentína í átta liða úrslit – Úrúgvæ enn án sigurs

Arturo Vidal skoraði sjálfsmark í gærkvöldi.
Arturo Vidal skoraði sjálfsmark í gærkvöldi. AFP

Argentína tryggði sér í nótt sæti í átta liða úrslitum Ameríkubikarsins í knattspyrnu karla, Copa America, með naumum sigri gegn Paragvæ í A-riðli. Þá skildu Úrúgvæ og Síle jöfn í riðlinum í gærkvöldi.

Sigurmark Argentínumanna skoraði Papu Gómez eftir laglegan undirbúning Ángel Di María. Markið kom á 10. mínútu og reyndist það eina í 1:0 sigri Argentínu.

Í gærkvöldi kom Eduardo Vargas Síle-mönnum yfir eftir 26 mínútna leik eftir sendingu frá Ben Brereton.

Um miðjan síðari hálfleikinn, á 66. mínútu, náði Úrúgvæ að jafna metin. Þar var að verki Arturo Vidal, illu heilli fyrir hann í eigið mark.

Þar við sat og 1:1 jafntefli niðurstaðan.

Í Copa America í ár er keppt í tveimur riðlum þar sem eru fimm lið í hvorum þeirra. Fjögur af fimm liðum úr hvorum riðli komast áfram í átta liða úrslit og þar með er Argentína búin að tryggja sér sæti í þeim.

Argentína er á toppi A-riðils með 7 stig eftir þrjá leiki, Síle í öðru sæti með 5 stig eftir 3 leiki, Paragvæ í þriðja sæti með 3 stig, Úrúgvæ í því fjórða með eitt stig eftir tvo leiki og Bólivía rekur lestina án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert