Erfiðara fyrir afa að sætta sig við það

Alfons Sampsted mætir Val.
Alfons Sampsted mætir Val. Ljósmynd/Jon Forberg

Alfons Sampsted og samherjar hans hjá norska liðinu Bodø/Glimt mæta Val í 2. umferð Sambandsdeildarinnar í fótbolta. Fyrri leikurinn fer fram á Hlíðarenda annað kvöld. Alfons hefur áður mætt Val með Breiðabliki og hefur fjölskyldutengsl við Val.

„Ég hef nokkrum sinnum spilað á móti Val og spilað með nokkrum leikmönnum sem eru í liðinu núna, svo ég þekki liðið vel,“ sagði Alfons í hlaðvarpsþætti norska félagsins.

„Þetta er lið sem berst fyrir öllu, sem er dæmigert fyrir íslenskt lið. Þeir eru með reynslumikla leikmenn sem hafa spilað á háu stigi á ferlinum,“ bætti Alfons við. Einn þeirra er Hannes Þór Halldórsson, en hann lék með Bodø/Glimt árið 2016.

„Hann hefur spilað yfir 100 leiki með íslenska landsliðinu. Birkir Már Sævarsson spilaði með Brann og á líka yfir 100 leiki með landsliðinu. Þetta verður erfiður leikur. Þeir eru hættulegir í vítateignum, en ég held við munum stjórna leiknum. Þeir eru hins vegar hættulegir og vanir því að vinna heima á Íslandi,“ sagði Alfons.

Hann hefur fjölskyldutengsl við Valsmenn því pabbi hans, afi og frændi hafa allir verið viðloðandi Val. Pabbi hans, Bergsveinn Sampsted, og afi hans, Harry Sampsted, hafa mikil tengsl við Val.

„Pabbi ólst upp hjá Val og frændi minn er einn sá leikjahæsti fyrir félagið. Afi var svo í stjórn félagsins. Það er því mikið Valsblóð í fjölskyldunni, en þó ekki mér. Ég hef alltaf haldið með og verið í Breiðabliki. Það var auðelt fyrir pabba að sætta sig við það en erfiðara fyrir afa,“ sagði Alfons.

Hann ætlar að fagna vel og innilega ef hann skorar sitt fyrsta mark fyrir Bodø/Glimt á móti Val. „Ég mun renna mér á hnjánum fyrir framan stuðningsmennina og fjölskylduna,“ sagði hann hlæjandi.

mbl.is