Fékk hrós frá þjálfaranum eftir fyrsta leikinn

Kristófer Ingi Kristinsson í leik með 21-árs landsliði Íslands.
Kristófer Ingi Kristinsson í leik með 21-árs landsliði Íslands. mbl.is/Hari

Knattspyrnumaðurinn Kristófer Ingi Kristinsson fékk hrós frá þjálfara sínum eftir að hafa spilað sinn fyrsta leik með SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni í gær.

Kristófer kom til félagsins frá Grenoble í Frakklandi um helgina en hann var í láni hjá PSV Eindhoven síðasta vetur og spilaði með varaliði félagsins í hollensku B-deildinni.

Hann kom inn á sem varamaður gegn Vejle eftir 77 mínútna leik í gær og sú ákvörðun Michaels Boris, þjálfara liðsins, virtist ekki slæm því þremur mínútum síðar skoraði Victor Mpindis sigurmark SönderjyskE, 1:0.

„Hann getur spilað frammi og líka á vinstri kantinum. Hjá PSV lék hann báðar stöðurnar. Hann er líka stór og með góða skallatækni. Hann hefur allt sem við þurfum,“ sagði Boris þjálfari við staðarblaðið Jydske Vestkysten.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert