Donnarumma besti markvörðurinn

Gianluigi Donnarumma.
Gianluigi Donnarumma. AFP

Ítalinn Gianluigi Donnarumma var í kvöld útnefndur besti knattspyrnumarkvörður heims á árinu 2021 í hinu árlega kjöri France Football sem afhendir Gullboltann, Ballon D'Or, ásamt fleiri verðlaunum í París í kvöld.

Donnarumma varði mark Ítala í sumar þegar þeir urðu Evrópumeistarar með því að sigra Englendinga í vítaspyrnukeppni eftir að úrslitaleikur liðanna á Wembley endaði 1:1. Hann er 22 ára gamall og varði mark AC Milan frá 2015  til 2021 en gekk til liðs við París SG í sumar. Donnarumma var valinn besti leikmaðurinn á EM í sumar og besti markvörður ítölsku A-deildarinnar 2020-21.

Donnarumma tók við Yashin-verðlaunagripnum sem kenndur er við hinn goðsagnakennda sovéska markvörð Lev Yashin.

Hinir fjórir sem komu til greina í kjörinu voru Ederson hjá Manchester City, Edouard Mendy hjá Chelsea, Manuel Neuer hjá Bayern München og Jan Oblak hjá Atlético Madrid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert