Fékk fangelsisdóm fyrir veðmálasvindl

Pawel Cibicki fagnar marki með Elfsborg sumarið 2019.
Pawel Cibicki fagnar marki með Elfsborg sumarið 2019. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Pawel Cibicki hefur verið dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi í Svíþjóð vegna þátttöku sinnar í veðmálasvindli.

Áður hafði hann verið dæmdur í fjögurra ára keppnisbann í Svíþjóð fyrir svindlið. Það bann tók gildi í maí á þessu ári en hinn pólskættaði Cibicki leikur þó með pólska félaginu Pogon Szczecin um þessar mundir og nær það því ekki til hans að svo stöddu.

Málið lýtur að því að Cibicki er gefið að sök að hafa fengið viljandi gult spjald í leik með Elfsborg gegn Kalmar í sænsku úrvalsdeildinni árið 2019 og fengið greitt fyrir. Þá lék hann sem lánsmaður frá enska félaginu Leeds United.

Upphæðin sem Cibicki fékk greidda, um 4,3 milljónir íslenskra króna, sagði hann sjálfur að hafi einfaldlega verið lán.

Skömmu áður en leikur Kalmars og Elfsborg hófst voru 27 nýir veðmálareikningar stofnaðir og áttu þeir það allir sameiginlegt að veðja á að Cibicki myndi fá gult spjald í leiknum.

Þótti það sannað fyrir dómstólum í Svíþjóð að Cibicki hafi fengið greitt fyrir að fá viljandi gult spjald og fékk hann því tveggja ára fangelsisdóm, sem er þó sem áður segir skilorðsbundinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert