Jónatan skoraði en Hörður klikkaði í sigri í vítaspyrnukeppni

Hörður Ingi Gunnarsson og Jónatan Ingi Jónsson í leik með …
Hörður Ingi Gunnarsson og Jónatan Ingi Jónsson í leik með FH síðasta sumar. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Íslendingalið Sogndal er komið áfram í 16-liða úrslit norsku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla eftir að hafa slegið KFUM Oslo naumlega út í 32-liða úrslitunum í dag.

Að loknum venjulegum leiktíma var staðan 1:1 og því þurfti að grípa til framlengingar. Staðan var sú sama að henni lokinni og því þurfti vítaspyrnukeppni til þess að knýja fram úrslit.

Bæði lið tóku sex spyrnur og skoraði Sogndal úr fimm af sínum spyrnum og KFUM Oslo úr fjórum, 5:4.

Jónatan Ingi Jónsson skoraði úr sinni spyrnu en Hörður Ingi Gunnarsson klúðraði sinni spyrnu.

Báðir léku þeir allan leikinn í liði Sogndal en Valdimar Þór Ingimundarson var tekinn af velli að loknum fyrri hálfleik í venjulegum leiktíma.

mbl.is