Lykilmaður Malmö missir af Víkingsleiknum

Milos Milojevic saknar lykilmanns þegar lið hans mætir Víkingi.
Milos Milojevic saknar lykilmanns þegar lið hans mætir Víkingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svíþjóðarmeistarar Malmö verða án eins af sínum bestu mönnum þegar þeir mæta Víkingi á heimavelli í fyrstu umferð Meistaradeildar karla í  fótbolta annað kvöld.

Milos Milojevic, þjálfari Malmö og fyrrverandi þjálfari Víkings, staðfesti við sænska fjölmiðla í dag að sóknarmaðurinn Isaac Kiese Thelin yrði ekki með gegn Víkingi en hann missti af síðasta leik liðsins í deildinni, gegn Sundsvell, vegna meiðsla.

Malmö tapaði þeim leik 2:1 og er nú dottið niður í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Häcken sem á auk þess leik til góða.

Thelin, sem er þrítugur, kom til liðs við Malmö í mars en hann hefur áður m.a. leikið með Anderlecht og Leverkusen.

mbl.is