Mílanóliðin fara vel af stað – Þórir spilaði gegn Inter

Denzel Dumfries fagnar sigurmarki sínu.
Denzel Dumfries fagnar sigurmarki sínu. AFP/Vicenzo Pinto

Ríkjandi Ítalíumeistarar AC Milan fara vel af stað í titilvörn sinni því liðið vann 4:2-heimasigur á Udinese í fyrstu umferð ítölsku A-deildarinnar í fótbolta í kvöld.

Rodrigo Becão kom Udinese yfir strax á 2. mínútu en Theo Hernández svaraði með marki úr víti á 11. mínútu og fjórum mínútum síðar kom Ante Rebic heimamönnum í 2:1.

Gestirnir frá Udinese áttu hinsvegar lokaorðið í fyrri hálfleik því Adam Masina jafnaði í 2:2 í uppbótartíma og þannig var staðan í leikhléi.

Meistararnir reyndust hinsvegar sterkari í seinni hálfleik því Brahim Díaz gerði þriðja mark Milan í upphafi seinni hálfleiks og Rebic gerði sitt annað mark á 68. mínútu og þar við sat.

Inter Mílanó, sem hafnaði í öðru sæti á síðustu leiktíð, þurfti sigurmark frá Denzel Dumfries í uppbótartíma til að leggja nýliða Lecce af velli á útivelli, 2:1.

Romelu Lukaku kom Inter yfir strax á 2. mínútu en Assan Ceesay jafnaði fyrir Lecce á 48. mínútu, en að lokum reyndist hinn hollenski Dumfries hetjan.

Þórir Jóhann Helgason kom inn á sem varamaður á 74. mínútu hjá Lecce og lék sinn fyrsta leik í ítölsku A-deildinni.   

mbl.is