Svava samdi við Gotham

Svava Rós Guðmundsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Svava Rós Guðmundsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svava Rós Guðmundsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur skrifað undir tveggja ára samning við NJ/NY Gotham, sem leikur í NWSL-deildinni, sterkustu deild Bandaríkjanna.

Svava Rós sagði á dögunum skilið við Brann, þar sem hún varð deildar- og bikarmeistari, og hefur nú fundið sér nýtt félag.

Hún er 27 ára gamall sóknarmaður sem hefur leikið 42 A-landsleiki fyrir Íslands. Í þeim hefur Svava Rós skorað tvö mörk.

„Ég er mjög spennt fyrir því að ganga til liðs við Gotham og fá tækifæri til þess að spila fyrir svona ótrúlegt félag.

Eitt af markmiðum mínum á ferlinum hefur ávallt verið að spila einn daginn í NWSL-deildinni og ég get ekki ímyndað mér betra félag til þess að gera það hjá heldur en Gotham,“ sagði Svava Rós meðal annars í samtali við heimasíðu félagsins.

Á ferli sínum hefur hún leikið með Val og Breiðabliki hér á landi og sem atvinnumaður hefur hún leikið með Röa og Brann í Noregi, Kristianstad í Svíþjóð og Bordeaux í Frakklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert