Lærisveinar Freys í umspil

Freyr Alexandersson, þjálfari Kortrijk.
Freyr Alexandersson, þjálfari Kortrijk. Ljósmynd/@kvkofficieel

Karlalið Kortrijk í knattspyrnu, sem Freyr Alexandersson þjálfar, fær tækifæri til þess að halda sæti sínu í belgísku A-deildinni. Í kvöld tapaði liðið 3:1 fyrir Charleroi en með hjálp Íslendingaliðs Eupen er ljóst að Kortrijk fer í umspil um að halda sæti sínu.

Eupen var þegar fallið en vann Molenbeek 2:0 í kvöld og tók þannig síðarnefnda liðið með sér niður í B-deild.

Charleroi var fyrir margt löngu búið að bjarga sæti sínu en Kortrijk lýkur leik með 31 stig en Molenbeek með 30 stig. Eupen hafnar í neðsta sæti með 28 stig.

Kortrijk mætir annað hvort Lommel eða Deinze í umspili um sætið í A-deildinni.

Magnaður árangur Freys

Árangur Kortrijk undir stjórn Freys, sem tók við stjórnartaumunum í janúar, er með nokkrum ólíkindum þar sem liðið var langneðst í deildinni þegar hann tók við.

Vann liðið sex leiki, gerði þrjú jafntefli og tapaði sjö í 16 leikjum í deildinni eftir að Freyr tók og þrátt fyrir dökkt útlit í upphafi árs getur Kortrijk enn bjargað sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert